Árétting vegna umfjöllunar um læknisfræðileg viðimð við inntöku í starfsnám

Í ljósi þeirrar umfjöllunar sem verið hefur í fjölmiðlum síðustu daga þá vill Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri við umsækjendur um starfsnám. Í maí sl. birti MSL á vef sínum læknisfræðileg viðmið fyrir inntöku nemenda í janúar 2020. Viðmið þessi voru endurskoðuð af teymi þriggja sérfræðilækna og höfðu þeir til viðmiðunar læknisfræðileg viðmið sem lögð eru til grundvallar inntöku í lögreglunám á Norðurlöndunum.

Að gefnu tilefni vill Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu taka fram að læknisfræðileg viðmið þessi eiga sér stoð í lögreglulögum (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1996090.html) og að matið er í höndum trúnaðarlæknis MSL. Menntasetrið fær engin læknisfræðileg gögn eða ástæður fyrir því telji trúnaðarlæknir umsækjanda ekki uppfylla skilyrði. Umsækjendur fara í læknisskoðun hjá sínum heimilislækni sem fyllir út vottorð í samráði við umsækjanda. Það er á ábyrgð umsækjanda að öllum spurningum sé svarað og að allir viðeigandi reitir séu útfylltir, að öðrum kosti telst vottorðið ógilt.

Í þeim tilvikum sem umsækjandi óskar eftir mati á hæfni, þrátt fyrir að hann sé haldinn sjúkdómi eða kvilla sem telst vera útilokandi þáttur, er nauðsynlegt að umsögn eða útskýringu þess sérfræðilæknis sem hefur annast hann vegna sjúkdómsins fylgi vottorðinu. Að öðrum kosti telst vottorðið ógilt.

Því miður sendu óvenju margir umsækjendur inn ógild vottorð í ár, bæði vantaði upplýsingar og sérfræðivottorð.

Hver umsækjandi er því metinn með tilliti til þess hvort einkenni kunni að vera hamlandi í lögreglustarfi eða ekki. Þessi skilyrði eiga einnig við um aðrar starfsgreinar hér á landi, s.s. flugmenn. Forsendur slíkra skilyrða eru að setja beri hagsmuni almennings ofar öðrum hagsmunum einstaklinga.

 

Læknisfræðilegar kröfur hér á landi taka því mið af sambærilegum viðmiðum á hinum Norðurlöndunum. Þá eru kröfur og reglur endurskoðaðar árlega í samræmi við nýjustu rannsóknir og þekkingu hverju sinni.

Læknisfræðileg viðmið við inntöku í nám byggja á lögreglulögum og er þau að finna hér: https://menntaseturlogreglu.is/laeknisfraedileg-vidmid/

 

Þessi viðmið eru sambærileg við viðmið á Norðurlöndunum, sbr.

Noregur, https://www.phs.no/studietilbud/bachelor/ofte-stilte-sporsmal-om-medisinske-krav/?fbclid=IwAR2m8bCfXp22GMIa8Or_Ori-hpLx85VIbVfLgihqxyRVMo4IYEAV9hfZ5k4

Svíþjóð, https://polisen.se/om-polisen/bli-polis/ansoka-till-polisutbildningen/forklaring-av-antagningskrav-till-polisutbildningen/?fbclid=IwAR2ZqzaOw5_vcib1EtuEkI8zO1x1TF438YJbW6RfZMfgpLRhpZ9AtMramic

Danmörk, https://politi.dk/politiskolen/adgangskrav/helbredsmaessige-forhold?fbclid=IwAR350QeZHHbYt8E3zWQKWORHXoGlHmkDB8jCDVYcJrF-UzeDrMmMxN0-mNs