— Fyrir verðandi lögreglumenn

Lögreglufræði

Kynntu þér lögreglufræðina

Sækja um hjá Háskólanum á Akureyri

Um námið


Diplómanám í lögreglufræðum

Lögreglufræði (e. Police Science) er sú fræðigrein sem fjallar um viðfangsefni löggæslu í víðu samhengi og nám í lögreglufræði miðar að því að veita nemendum haldgóða undirstöðufærni í því að fyrirbyggja og upplýsa um brot á lögum og að tryggja almennt öryggi borgaranna.

Nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri er 120 eininga tveggja ára starfstengt diplómanám en einnig er hægt að ljúka bakkalárnámi í lögreglufræði til 180 eininga. Þeir sem ljúka námi í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn útskrifast með starfsréttindi sem lögreglumaður. Þeir hafa jafnframt möguleika til sérhæfingar á ólíkum sviðum innan lögreglunnar. Bakkalárnámið leggur grunn að ólíkum leiðum í námi og starfi.

Verðandi lögreglumenn

Lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn er í boði sem sveigjanlegt nám. Með sveigjanlegu námi er átt við nemendamiðað nám án kröfu um daglega viðveru á háskólasvæðinu. Allir fylgja sömu námskránni og námskröfur eru þær sömu. Rafræn skyldumæting getur verið í tíma sem kenndir eru í rauntíma, en nemendur geta stundað námið óháð búsetu. Nemendur þurfa því ekki endilega að vera búsettir á Akureyri heldur koma í háskólann í sérstakar námslotur þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður. Í námslotunum gefst nemendum tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu. Þess er krafist að nemendur mæti í loturnar og taki virkan þátt. Ein námslota er á hverju misseri á Akureyri.

Námskeiðin Starfsnám í lögreglufræði eru á hverju misseri í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) annast og skipuleggur námskeiðin í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Áhersla er lögð á verklega lögreglutengda þjálfun.

Starfsnám í lögreglufræði I, II og III eru kennd í fjórum vikulöngum lotum og fara að mestu fram í húsnæði MSL í Reykjavík. Mætingarskylda er í starfsnámslotur MSL.

Starfsnám í lögreglufræði IV er á fjórða og síðasta misseri diplómanámsins. Stærsti hluti námskeiðsins er vettvangsnám sem fram fer hjá einhverju af lögregluembættum landsins. Nemendur velja sér vettvangsnámsembætti og er reynt að verða við þeim óskum. Þar eru nemendur undir leiðsögn reyndra lögreglumanna sem stýra þeim við almenn lögreglustörf. Nemendur fá einnig innsýn í störf rannsóknarlögreglu ásamt fleiri þáttum lögreglustarfsins.

Um starfið


Lögreglustarfið

Lögreglustarfið er bæði krefjandi og spennandi starf. Verkefni lögreglunnar eru fjölbreytt og það sem gerir starfið sérstakt er að enginn dagur er eins. Lögreglan er ein af grunnstoðum samfélagsins og lögreglumönnum er treyst til þess að halda uppi lögum og reglum landsins. Traust borgarans til lögreglu er nauðsynlegt og lögreglan viðheldur gagnkvæmu trausti með góðum og fagmannlegum vinnubrögðum.

Lögreglustarfið reynir á hug og líkama og þess vegna er nauðsynlegt að vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi til þess að geta tekist á við starfið og þau fjölbreyttu verkefni sem það kann að bjóða upp á.

Umsagnir fyrrum nemenda


1. Páll Janus Þórðarson lögreglumaður

Af hverju ákvaðst þú að fara í lögregluna?
Það má segja að ég hafa verið narraður í að prófa ballvaktir og afleysingar sem héraðslögreglumaður, en eftir fyrsta veturinn sem slíkur varð eiginlega ekki aftur snúið. Þarna hafði ég fundið mína hillu og réði ég mig í fullt starf við löggæslu strax sumarið eftir. Á þessum tíma var lögreglunámið í ákveðinni óvissu svo ég starfaði í um tvö ár áður en að mér hugnaðist að hefja nám við lögreglufræði í Háskólanum á Akureyri.

Hvað fannst þér þú helst hafa lært af náminu og starfinu?
Stærsti lærdómurinn úr starfinu hefur sennilega verið að taka aldrei nokkrum hlut sem gefnum, alveg sama í hvaða samhengi maður vill túlka það. Sama hvort það sé einfaldir hlutir eins og kurteis kveðja frá samborgara, áreiðanleiki frásagnar, eða það að geta farið heim að lokinni vakt og hitt fjölskyldu sína og vini. Því lengur sem maður sinnir lögreglustarfinu því betur áttar maður sig á því að það er ekki öllum gefin sömu spil á hendi og maður skal þakka fyrir það sem maður hefur.
Hvað námið varðar þá held ég að mesti lærdómurinn hafi verið fólginn í samvinnunni. Krafturinn sem myndast þegar fólk stefnir í eina átt með sameiginleg markmið og sýn kemur manni áfram í gegnum hvaða raun sem er.

Hvað var skemmtilegast við lögreglunámið?
Held ég tali fyrir allan árganginn þegar ég segi að það skemmtilegasta við lögreglunámið hafi klárlega verið félagsskapurinn, án alls vafa. En kennararnir voru samt ekkert svo slæmir heldur. Þá komumst við í tæri við marga áratugi af uppsafnaðri reynslu og þjálfun og virtust bransasögurnar oft á tíðum engan endi ætla taka.

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir starfið?
Andlegt og líkamlegt jafnvægi hefur mér þótt mjög mikilvægt í starfi lögreglumanns. Starfsumhverfið er með þeim hætti að séu sprungur fyrir getur verið erfitt að fylla í þær þegar mikið gengur á, vansvefta vaktavinnufólk er veikt fyrir ýmsum kvillum sem geta ýtt undir fyrri erfiðleika.
Undirbúningur fyrir lögreglustarfið er þó ekki ferli sem hefur upphaf og endi. Öll sú reynsla sem einstaklingur hefur öðlast í gegnum lífið kemur að öllum líkindum að notum á einhverjum tímapunkti á starfsævinni. Eins verður enginn fullnuma lögreglumaður, símenntun og æfingar eru reglulegur hluti starfsins allt til starfsloka.

Kom eitthvað þér á óvart í náminu?
Já, fleira en ég hef tölu á. Mest þó sennilega áherslan á öguð og fagmannleg vinnubrögð. Skýrsluskrif og lögreglusiðir voru frábær leið til að kippa okkur niður á jörðina eftir ákafar og krefjandi verklegar æfingar. Skýrsluskrifin voru sennilega það tormeltasta sem boðið var upp á en það má líkja því að læra að skrifa góða lögregluskýrslu eins og að læra nýtt tungumál. Málfar og orðaval er ekki eins og gengur og gerist í almennri íslenskukennslu.

Páll Janus Þórðarson

2. Ingvar Sigurðsson lögreglumaður

Af hverju ákvaðst þú að fara í lögregluna?
Mér fannst það spennandi og jafnframt ögrandi áskorun að ganga í lögregluna. Ég taldi starfið geta sameinað þá reynslu og menntun sem ég hafði aflað mér í öðrum greinum svo sem fangavörslu, slökkviliði og sjúkraflutningum.

Hvað fannst þér þú helst hafa lært í náminu og starfinu?
Ég lærði mikið af námi mínu í Lögregluskóla ríkisins. Skólinn var frábær undirbúningur undir þau fjölbreyttu og oft krefjandi verkefni sem lögreglan fæst við í sínum störfum. Verklegar æfingar þar sem raunhæf útköll voru sett á svið stóðu upp úr í því fjölbreytta námi sem LSR bauð upp á en þar dró maður saman þá þekkingu sem maður hafði fengið úr bóklegri kennslu og nýtti sér hana í úrlausn raunhæfra mála sem lögregla getur þurft að takast á við.
Af lögreglustarfinu hef ég lært að búast við hinu óvænta og þróa með mér skilning og umburðarlyndi sem á þarf að halda í því þjónustustarfi sem lögreglustarfið er að stórum hluta.

Hvað kom þér á óvart í starfinu?
Það kom mér á óvart hversu stór hluti starfsins er unnin fyrir framan tölvu en mikilvægi skýrslugerðar og úrvinnslu mála í tölvukerfi lögreglunnar er mikilvægur þáttur í faglegu löggæslukerfi.

Hvað er skemmtilegast við lögreglustarfið?
Fjölbreytileikinn sem í starfinu býr er skemmtilegur að því leyti að engar tvær vaktir eru eins. Ég hef einnig einstaka ánægju af þjónustuþætti starfsins og því að hafa samskipti við fólk í oft erfiðum aðstæðum og veita því hjálparhönd þegar þörf er á.

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir starfið? 
Vera vel þjálfaður á líkama og sál. Mín reynsla og menntun hjá öðrum viðbragðsaðilum hefur nýst mér vel í starfi sem lögreglumaður og tel ég einnig önnur störf sem fela í sér mikið af mannlegum samskiptum geti komið sér vel í starfi.

3. Rut Herner Konráðsdóttir lögreglukona

Af hverju ákvaðst þú að fara í  lögregluna?
Ástæða mín fyrir því að velja lögregluna sem starfsvettvang var það hversu spennandi mér fannst starfið án þess þó að þekkja það mjög vel. Auk þess bar ég mikla virðingu fyrir lögreglunni, svo það að verða lögreglumaður fannst mér mikil viðurkenning í sjálfu sér og ég er stolt af því í dag.

Hvað fannst þér þú helst hafa lært af náminu og starfinu?
Námið kenndi mér hrikalega margt, örugglega meira en ég geri mér grein fyrir enda margt í bankanum sem ég hef ekki enn þurft að nota. Í lögreglunáminu lærði ég aga, bæði í námi og hegðun. Þessi agi sem ríkti í Lögregluskólanum mótaði mig mikið.
Fyrst og fremst finnst mér starfið hafa kennt mér æðruleysi og sjálfstæði, ég hafði það vissulega áður en nú í svo mun meira mæli. Það að koma inn í aðstæður sem eru þér framandi en þú þarft samt sem áður að tækla er mjög krefjandi og lærdómsríkt.

Hvað kom þér á óvart í starfinu?
Það hvernig ég tekst á við hinar ýmsu aðstæður kom mér helst á óvart. Starfið sem slíkt getur verið bæði skemmtilegt og fróðlegt en líka erfitt og sorglegt. Þó maður hafi farið í þetta starf vitandi hversu fjölbreytt það væri þá gat ég ekki getað ímyndað mér hversu fjölbreytt það er í raun og veru, enda eru engir dagar eins. Eins getur það ekki annað en komið manni á óvart hvaða þátt lögreglan spilar í hinum ólíklegustu málum, en það er afar lærdómsríkt.

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir starfið?
Undirbúningur fyrir lögreglustarfið er afskaplega fjölþættur, en það er misjafnt hvernig fólk er statt. Líkamlegt heilbrigði skiptir auðvitað miklu máli og það að vera öruggur með sig í aðstæðum sem krefjast þess að þú beitir líkamlegum styrk er mikilvægt. Andlega hliðin er hinsvegar ekkert minna mikilvæg og það að vera í andlegu jafnvægi getur komið þér í gegnum ótrúlegustu hluti. Þekking á vinnuumhverfi, þínum verkfærum og samfélaginu er líka stór þáttur. Svo eins og ég segi, þá er þetta mjög fjölþætt og ekkert eitt rétt svar.

Rut Herner Konráðsdóttir

4. Sandra Pawlik lögreglukona

Af hverju ákvaðst þú að fara í lögregluna?
Alveg síðan ég man eftir mér langaði mig að verða lögreglukona. Mér fannst starfið spennandi, virðingarvert og mig langaði að leggja mitt af mörkum til að halda réttlæti í samfélaginu. Auðvitað var ég líka forvitin hvað var að gerast í hvert sinn sem ég sá lögreglubíl keyra um með bláu ljósin.

Hvað fannst þér þú helst hafa lært af náminu og starfinu?
Ég lærði heilmikið af lögreglunáminu. Námið var talsvert mikið bóklegt en verklegi hlutinn skipti einnig miklu máli. Í rauninni var verklegi hlutinn það sem ekki er hægt að læra af bókinni eins og traust, samheldni og agi. Ég hef einnig lært margt af starfinu sjálfu.

Hvað er skemmtilegast við lögreglustarfið?
Skemmtilegast við starfið finnst mér vera öll þessi fjölbreytni og að enginn vinnudagur er eins. Ég mæti í vinnuna og veit ekki hvaða verkefni bíða mín þann daginn. Vinnufélagarnir skipta miklu máli, hægt er að læra mikið af þeim og það eru þeir sem gera vinnuna ennþá betri.

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir starfið?
Held að það sé ekki til nein ein leið til að undirbúa sig fyrir lögreglustarfið. Góður grunnur í íslensku er mikilvægur en einnig nýtist vel að kunna fleiri en eitt tungumál. Að vera góður í mannlegum samskiptum skiptir líka miklu máli. Einnig að vera í góðu andlegu og líkamlegu standi.

Sandra Pawlik

5. Zvezdan Smári Dragojlovis lögreglumaður

Af hverju ákvaðst þú að fara í lögregluna?
Ég byrjaði að starfa sem héraðslögreglumaður á Ísafirði vorið 2012. Lögreglustarfið heillaði mig strax og yfir sumarið tók ég þá ákvörðun um að taka inntökuprófið í Lögregluskólann um haustið, sama ár. Ég var hinsvegar mjög kvíðinn fyrir íslenskuprófinu þar sem ég er af erlendum uppruna og fór ekki í gegnum skólakerfið hérlendis, en ég náði prófinu og í dag er ég mjög stoltur að geta sagt  að ég starfi sem lögreglumaður. Starfið er mjög spennandi og verkefnin geta verið mjög fjölbreytt, að geta hjálpað fólki þegar brýna nauðsyn ber til hljómar aðeins meira spennandi en að starfa frá klukkan 8 til 17 í verslunum eða vera við skrifborð.

Hvað fannst þér þú helst hafa lært af náminu og starfinu?
Í starfinu lærir maður hvernig við getum stundum verið mjög brothætt í ákveðnum aðstæðum en maður lærir líka því að mannskepnan er stundum versta skepna sem jörðin hefur þurft að hýsa.
Í náminu lærir maður fyrst og fremst skilning á lögreglustarfinu, þ.e. að vinna með fólki og fyrir fólkið og jafnframt öðlast maður þekkingu, færni og hæfni til þess að geta starfað sem lögreglumaður í samræmi við gildandi lög og reglur. Síðast en ekki síst er lögð mikil áhersla á fagleg vinnubrögð lögreglumanna, samskipti okkar við borgarana, rannsókn mála og finna sem bestu úrlausnina í erfiðum málum.

Hvað er skemmtilegast við lögreglustarfið? 
Skemmtilegasta við lögreglustarfið er náttúrlega félagsskapurinn og það má segja að sé mjög sérstakur og einkennilegur húmor innan lögreglunnar. Traustur vinur getur gert kraftaverk er oft sagt og það eru orð að sönnu, en maður lendir einnig í ýmsu í starfinu sem er ekki beint lögreglumál.

Zvezdan Smári Dragojlovis

Hvernig sæki ég um?

Þú sækir um námið á heimasíðu Háskóla Akureyri

Sótt er um á heimasíðu Háskólans á Akureyri um nám í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn. Opnað var fyrir umsóknir 14. febrúar og er umsóknarfrestur til og með 31. mars 2022.