Lögreglustarfið hefur lengi heillað mig. Starfið getur bæði verið krefjandi og gefandi og þú veist aldrei hvað bíður þín þegar þú mætir á vaktina. Verkefnin sem upp koma eru fjölbreytt. Þú getur enn fremur þurft að hafa afskipti af fólki á þeirra verstu stundum en einnig aðstoðað á góðum stundum.
Að vinna í lögreglunni er því fjölbreytt starf og innan hennar er margt sem hægt er að sérhæfa sig í. Þú getur unnið í almennri deild þar sem þú sinnir fjölbreyttum verkefnum og þú getur farið í rannsóknardeild og sérhæft þig á þeim vettvangi. Sviðin eru einnig fleiri.
Ég sjálf starfa í almennu deildinni hjá mínu embætti en einnig er ég búin að sérhæfa mig sem leiðbeinandi með fíkniefnahund. Þar liggur minn áhugi og því fannst mér tilvalið að sérhæfa mig í því þegar ég fékk tækifæri til þess.
Námið í lögreglufræði er mjög áhugavert nám. Það er sett upp þægilega, að mínu mati, þar sem þú getur tekið bóklega hluta þess í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri og svo er verklega kennslan hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu (MSL) kennd í lotuformi í Reykjavík. Þar af leiðandi getur þú stundað námið hvar á landi sem er. Hjá MSL er þér kennt margt af því sem tengist starfinu þar sem þú þarft að leysa úr krefjandi verkefnum við krefjandi aðstæður. Námið í MSL er kennt í bekkjarkerfi og því kynnist þú hópnum þínum vel.
Eftir námið gefst þér tækifæri til að starfa í lögreglu þar sem þú heldur áfram að læra þar sem upp geta komið verkefni af fjölbreyttum toga sem þurfa mismunandi úrvinnslu. Svo býður MSL upp á allskonar námskeið sem þú getur sótt og aukið þekkingu þína á ýmsum sviðum.
Ég hvet þig, hafir þú áhuga á áskorunum og fjölbreytileika í starfi og að vinna í góðum og samheldnum hópi samstarfsmanna, að skrá þig í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri.
Opið er fyrir umsóknir í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri til 31. mars. Kynntu þér málið á www.menntaseturlogreglu.is
Margrét Alda Magnúsdóttir
lögreglumaður