Gefandi að geta lagt sitt af mörkum til að stuðla að öryggi og vellíðan

Hvernig getur nokkur manneskja hugsað sér að vinna við löggæslu? Af hverju kýs fólk að velja neyð annarra sem viðfangsefni flesta daga ársins? Svarið er ekki einfalt en í nokkrum orðum langar mig að vekja athygli á kostum þess að læra lögreglufræði og að starfa á þeim vettvangi.
Umræðan um löggæslu og verkefni hennar er oft á tíðum neikvæð, sem kannski er skiljanlegt í ljósi þess að gjarnan kemur það ekki til af góðu þegar fólk hittir lögregluna. Lögreglan er oft boðberi slæmra tíðinda og lögreglumenn þurfa oft að hafa afskipti af fólki á verstu stundum þess. Það endurspeglar þá mynd sem við fáum af lögreglunni í fjölmiðlum.

Ég hef aðra sýn og af þeim sökum valdi ég mér þennan vettvang. Í upphafi var markmiðið að vinna sem sumarstarfsmaður í lögreglunni og leggja þannig inn í  reynslubankann og gera ferilskrána meira spennandi. Fljótlega áttaði ég mig hins vegar á því hvað það er gefandi að geta lagt sitt af mörkum til að greiða götu borgaranna, stuðla að öryggi og vellíðan og rétta þeim hjálparhönd sem á einhvern hátt hafa orðið undir í lífinu, hvort sem það eru brotaþolar eða sakborningar.
Margir vilja geta hugsað til þess í lok vinnudags að þeirra veri hafi orðið öðrum til góðs, þó það sé ekki nema í litlum mæli. Fyrir þá eru löggæslustörf góður kostur.

Lögreglufræði eru kennd við Háskólann á Akureyri sem og í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. Þar er grunnurinn lagður að lögreglumanninum sjálfum með bóknámi og verkþjálfun. Í náminu er meðal annars lögð áhersla á góð samskipti við borgarana, læsi og skilning á fólk og aðstæður. Einnig á vandvirkni og heiðarleiki í vinnubrögðum. Að sjálfsögðu einnig ótal margt annað en þetta er það sem mér finnst mikilvægt að lögreglumenn tileinki sér og í raun uppskrift að góðum lögreglumanni.

Lögreglunámið er fjölbreytt og þar er reynt að koma á framfæri öllu því sem lögreglumaður getur þurft að fást við í sínu starfi og gera hann í stakk búinn til að fást við allar mögulegar aðstæður, sem oft geta orðið verulega erfiðar.  Náminu líkur þó ekki við útskrift því lögregluvinnan er endalaust nám, sem er eitt af því sem gerir starfið áhugavert.

Það er undir hverjum og einum komið að afla sér aukinnar þekkingar og leggja sig fram í starfinu og tækifærin eru sannarlega til staðar. Síðastliðin tvö ár, tæp, hef ég starfað hjá lögreglunni á Suðurnesjum og þar hef ég fengið að sérhæfa mig í rannsókn á málum er varða heimilisofbeldi. Það er fátt sem hefur meiri áhrif á fólk en að verða fyrir ofbeldi af hendi náins aðila, jafnvel ítrekað. Daglegar sögur af ofbeldi, myndir af áverkum og framburður barna í slíkum aðstæðum eru krefjandi og taka sinn toll. Skjót og rétt viðbrögð lögreglu geta skipt sköpum og það er það sem gefur þessu starfi gildi.

Viðhorf til heimilisofbeldismála, innan lögreglunnar,  og samfélaginu í heild hefur breyst mikið á síðustu árum. Þekking á þessum viðkvæma málaflokki hefur jafnframt aukist jafnt og þétt og það er svigrúm til að gera enn betur.  Í mínu starfi vinn ég náið með fólki frá félagsþjónustu og barnavernd, lögmönnum, aðilum máls sem og kollegum innan lögreglunnar. Ég einblíni á árangurinn sem næst með okkar vinnu en ekki hörmungarnar sem við verðum vitni að. Það drífur mig áfram og veitir mér starfsánægju.

Hafir þú áhuga og metnað til þess að leggja góðum málefnum lið þá skora ég á þig að sækja um nám í lögreglufræðum. Lögreglan er fyrir okkur öll.  Mönnum hana vel með fjölbreyttum hópi hugsjónafólks!


Opið er fyrir umsóknir í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri til 31. Mars. Kynntu þér málið á www.menntaseturlogreglu.is


Rúnar Gíslason, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum.