Inntökupróf 2024

Inntökupróf fyrir umsækjendur um lögreglufræðinám við Háskólann á Akureyri, haustið 2024, hefjast mánudaginn 8. apríl næstkomandi. Reiknað er með um 30 þátttakendum hvern prófdag og óljóst hvað margir prófdagar verða haldnir, enda umsóknafresti ekki lokið þegar þessi frétt er rituð og heildarfjöldi umsækjenda liggur ekki fyrir.

Þann 26. mars lýkur umsóknarfresti um námið og skömmu síðar verður sendur út bókunarhlekkur fyrir fyrrihluta inntökuprófnna, á umsækjendur er standast kröfur um almennt háskólanám og aldursskilyrði lögreglufræðinámsins. Eins og fram kemur hér að ofan verða 30 sæti í boði hvern prófdag og hefur það sýnt sig í gegnum árin að ákveðnir prófdagar fyllast fyrr en aðrir. Áríðandi er að tölvupóstfang sé rétt skráð í umsókn þar sem að bókunarhlekkur verður sendur á uppgefið tölvupóstfang ásamt frekari upplýsingum um framkvæmd prófanna.

Seinni hluti inntökuprófa (viðtöl) hefst mánudaginn 22. apríl og verða í boði nokkrar dagsetningar. Í viðtölin verða eingöngu þeir boðaðir sem standast fyrri hluta prófanna ásamt bakgrunnsskoðun lögreglu.

29. apríl hefjast læknisskoðanir hjá trúnaðarlækni Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og verða nokkrar dagsetningar í boði fram í maí. Í læknisskoðun verða þeir eingöngu boðaðir sem standast inntökuskilyrði og inntökupróf. Kostnaður umsækjenda vegna læknisskoðunar er um 37.000 kr. og fæst ekki endurgreiddur standist umsækjandi ekki heilbrigðisskilyrði.

Við bendum þeim umsækjendum sem koma langt að, að skipuleggja dagsetningar prófa og læknisskoðunar m.t.t. að fækka ferðum. Í boði verða samliggjandi dagsetningar þessara þátta og því áríðandi að fylgjast vel með og bóka tíma þegar upplýsingar berast.