Fulltrúi mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu heimsótti í síðustu viku lögregluháskólann í Tampere, Finnlandi, til að fylgjast með öðrum fasa matsferlis á umsækjendum um nám við skólann. Nemendur eru teknir 4-5 sinnum inn í skólann á ári hverju og eru umsækjendur yfir fjögur þúsund. Því hefur talsverð reynsla safnast saman yfir árin í mati á umsækjendum. Meðal þeirra verkefna sem lögð eru fyrir umsækjendur í öðrum fasa umsóknarferlisins eru sálfræðipróf, einstaklingsviðtal, einstaklingskynning fyrir hópi umsækjenda og hópverkefni. Í kjölfar samstarfs við finnska lögregluháskólann hefur inntökuferli í starfsnám verið breytt á þá vegu að fleiri þættir eru metnir nú í ár en verið hefur undanfarin ár með það að markmiði að matið gefi betri mynd af styrkleikum og takmörkum hvers umsækjanda.