Nú er umsóknarfresti um nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn lokið og bárust alls 243 umsóknir til Háskólans á Akureyri. Alls stóðust 224 umsækjenda skilyrði háskólans til náms og fengu þeir boð um að mæta í fyrri hluta inntökuferils hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, sem stendur yfir þessa dagana. Einungis 180 umsækjenda boðuðu sig í fyrri hluta ferilsins en í því ferli er almennt þrek umsækjenda kannað m.a. með 2.000 metra hlaupi, styrktar- og snerpu prófum, ásamt sundi . Þeir sem standast þær kröfur sem gerðar eru í þrekhluta inntökuferilsins halda áfram og reynir þá á getu umsækjenda í að lýsa skriflega, atviki sem þeim er sýnt í myndskeiði. Þá þurfa umsækjendur að gangast undir ítarlegt sálfræðimat sem getur vegið þungt í inntökuferlinu.
Bakgrunnsskoðun umsækjenda hefst að loknum fyrri hluta inntökuferilsins en hún er framkvæmd af greiningardeild ríkislögreglustjóra. Að lokinni bakgrunnsskoðun tekur við seinni hluti ferilsins en hann felst í viðtali við umsækjendur. Viðtalið er framkvæmt af fagfólki innan lögreglunnar, lögreglumönnum og sérfræðingum, notast er við svo kallað hálf staðlað viðtalsform.
Að lokum þurfa þeir sem standast allar þær kröfur sem gerðar eru til verðandi lögreglumanna, samkvæmt lögum og reglugerðum, að gangast undir ítarlega læknisskoðun trúnaðarlæknis Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og Háskólinn á Akureyri vonast til að niðurstaða í vali verðandi lögreglufræðinema verði lokið eigi síðar en í byrjun júlí, með fyrirvara um álitamál sem upp kunna að koma í ferlinu.