Nám í lögreglufræðum 2022 að hefjast.

Síðast liðið vor bárust Háskólanum á Akureyri 224 gildar umsóknir um nám í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn. Umfangsmikið ferli er í kringum val á nemendum í námið og hófust inntökupróf í apríl og stóðu þau fram í lok maí.

Af þeim 224 sem sóttu um námið í upphafi skiluðu sér aðeins 157 umsækjendur í inntökuprófin , 59 (38%) konur og 98 (62%) karlar.

Alls stóðust 104 umsækjendur inntökuferlið en það byggðist á þrekprófum, sundprófi, málfars- og frásagnarverkefni, sálfræðiprófum og viðtölum. Þá gengust umsækjendur undir ítarlega heilbrigðisskoðun hjá trúnaðarlækni Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL),þá skoðun þurfa allir að standast m.t.t. þeirra heilbrigðiskrafna sem gerðar eru til nema sem hefja starfsnám hjá lögreglu.

Nú í ár var ákveðið að fjölga nemendum í náminu töluvert. Var 85 umsækjendum boðið að hefja námið nú í haust og réðu niðurstöður inntökuprófa hverjir fengu skólavist í ár. Kynjaskiptingin nú er þannig að 26 (30%) konur hefja námið og 59 (70%) karlar.

Nú eru nýafstaðnir nýnemadagar í háskólanum á Akureyri þar sem nemendur fengu kynningu á því sem fram undan er í þessu tveggja ára diplómanámi og þann 5. september mætir fyrri hópur nýnemanna okkar í fyrstu lotu í Starfsnáms í MSL en þar fer fram allt verknám, kennsla og þjálfun er tengist störfum lögreglu.