Breytingar á félagslegum bakgrunni lögreglunema í kjölfar þess að lögreglunám var fært á háskólastig

Bókin The Making of a Police Officer: Comparative Perspectives on Police Education and Recruitment kom nýverið út hjá Routlede bókaútgáfunni. Ritstjórar eru Tore Bjørgo og Marie-Louise Damen en í bókinni er m.a. að finna kaflann „Iceland as a microcosm of the effects of educational reform on police students’ social background“ eftir Guðmund Oddsson, Andy Hill, Ólaf Örn Bragason, Þórodd Bjarnason and Kjartan Ólafsson. Guðmundur, Andy, Þóroddur og Kjartan eru kennarar við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri en Ólafur er forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) og stundakennari við HA.

Bókin er afrakstur samevrópska rannsóknarverkefnisins „RECPOL – Recruitment, Education, and Careers in the Police“. Umrætt verkefni hefur verið í gangi síðan 2007 og er eina rannsóknin sinnar tegundar í heiminum, þ.e.a.s. fjölþjóðleg rannsókn á lögreglunemum. Tilgangur RECPOL er að fræðast um lögreglunema í sjö Evrópulöndum: Belgíu, Danmörku, Íslandi, Noregi, Skotlandi, Svíþjóð og Spáni (Katalóníu) með reglulegum spurningalistakönnunum. RECPOL-rannsóknin eykur skilning okkar á hvaðan lögreglunemar koma, hvað þeir vilja og hvaða viðhorf hafa þeir til lögreglustarfsins. Þetta eykur skilning á gildismati og viðhorfum lögreglunema og hvernig hvernig þeir mótast í námi og starfi. Rannsóknin veitir auk þess mikilvægar upplýsingar um bakgrunn lögreglunema og ástæður þess að þeir innrituðust í námið.

Í kafla Guðmundar og meðhöfunda er rýnt í breytingar á félagslegum bakgrunni lögreglunema í kjölfar þess að lögreglunám á Íslandi var fært upp á háskólastig árið 2016. Lögregluskólinn var aðili að RECPOL rannsókninni og hafði gögnum verið safnað fyrir fimm árganga skólans (við upphaf náms og við útskrift). Sú staðreynd að lögreglunám á Íslandi var fært upp á háskólastig haustið 2016 gefur okkur einstakt tækifæri á heimsvísu til þess að skoða áhrif þessara breytinga á félagslegan bakgrunn lögreglunema (og seinna meir á viðhorf þeirra og gildismat).

Bókina er hægt að kaupa beint frá útgefanda og í gegnum vefsíður á borð við Amazon.