Í júní fengum við tvær skemmtilegar heimsóknir, frá Rúmeníu og Þýskalandi. Fyrri heimsóknin tengist alþjóðlegu samstarfsverkefninu Erasmus+ sem við erum í með Rúmeníu. Því fengum við til okkar virkilega ánægjulega og áhugaverða heimsókn frá sálfræðingum lögreglu í Rúmeníu. Þar sem við kynntum fyrir þeim starfsemina hjá okkur og sérstök verkefni sálfræðinga hér á landi ásamt því að fá kynningu á þeirra hlutverki innan lögreglunnar í Rúmeníu. Hér má sjá mynd af sálfræðingum RLS og sálfræðingunum Mögdu og Cristinu frá Rúmeníu.
Seinni heimsóknin var í tengslum við Lögregluskólann í Brandeburg. Það voru þýskir lögreglunemar sem fengu m.a. kynningu á starfsemi Ríkislögreglustjóra, sérsveitar, almannavarnardeildar, lögreglunnar á Suðurlandi ásamt tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglu. Að lokum fengu þeir einnig kynningu á starfsemi Landhelgisgæslunnar eins og sjá má á myndinni hérna fyrir ofan.