Laugardaginn 13. júní sl. stóð Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) fyrir uppskeruhátíð í Bústaðakirkju þar sem 53 nýir lögreglumenn voru boðnir velkomnir í lögregluna. En þennan sama dag brautskráðist hópurinn frá Háskólanum á Akureyri (HA) með diplómu í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn. Sú brautskráning fór fram með rafrænum hætti og þess vegna var sú ákvörðun tekin að blása til hátíðar að hætti gamla Lögregluskólans til að fagna áfanganum.
Lögreglukórinn söng nokkur lög af sinni alkunnu snilld auk þess sem Ólafur Örn Bragason forstöðumaður MSL, Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Ólafur Egilsson fráfarandi lögreglufulltrúi í MSL og Guðmundur Oddsson brautarstjóri í lögreglufræðum við HA tóku til máls og gáfu nýju lögreglumönnunum góð ráð inn í framtíðina. Þá tók einnig til máls Rannveig Íva Aspardóttir fulltrúi nemenda og flutti annál nemenda.
Fulltrúi Landssambands lögreglumanna, Ágúst Rafn Einarsson veitti Arnari Guðjóni Skúlasyni verðlaun fyrir hæstu einkunn í diplómanáminu og þá var Sveinn Ólafur Lúðvíksson verðlaunaður fyrir að hafa slegið skólametið í 3000 m hlaupi, tími 10:21.
Samkoman var takmörkunum háð og fengu nemendur aðeins að taka með sér tvo gesti.
Mikill og góður hátíðisdagur.
Myndirnar tala sínu máli.