Í síðustu viku sótti fulltrúi Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu vinnustofu á vegum Evrópusambandsins um framtíð Evrópusamstarfs þegar kemur að lögreglumenntun. Samstarf Evrópusambandsins á sviði menntamála lögreglu er fjölbreytt og er í höndum 12 Evrópustofnana sem annaðhvort vinna sjálfstætt eða í samstarfi við aðra að fræðslustarfi. Stærst þessara stofnana er Landamærastofnun Evrópu (Frontex) en sú stofnun hefur skipulagt gríðarlega öflugt fræðslustarf, unnið að kjarnanámsskrá ásamt hæfniviðmiðum landamæravörslustarfsins (SFQ). Evrópski lögregluskólinn (CEPOL) hefur einnig boðið upp á fjölbreytta fræðslu í formi staðbundinna námskeiða, vefnámskeiða og skiptináms. Sérfræðingar Europol koma að þjálfun í 60% þeirrar fræðslu sem CEPOL býður upp á. Evrópulögreglan (the European Police Office – Europol) stendur einnig að þjálfun fyrir lögreglu bæði í höfuðstöðvum sínum í Haag auk þess sem sérfræðingar þeirra ferðast til Evrópulanda til að miðla þekkingu. Þá eru bæði eu-LISA (European Agency for the operational management of large-scale IT systems in the area of freedom, security and justice) og the European Anti-Fraud Office (OLAF) að bjóða upp á þjálfun fyrir lögreglumenn. Ljóst er þetta mikla námsframboð hefur styrkt sérfræðiþekkingu víða í Evrópu en þar sem sérfræðinám og símenntun er á höndum margra aðila er erfitt að henda reiður á námsframboðið, miðla upplýsingum til skilgreinds markhóps hverju sinni og miðla þekkingunni að þjálfun lokinni. Það eru því talsverð tækifæri fyrir íslenska lögreglu að sækja sérhæfða menntun á vegum Evrópusambandsins.