Á miðnætti 9. apríl síðastliðinn var lokað fyrir umsóknir í diplómanám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri.
Alls sóttu 232 einstaklingar um í námið að þessu sinni, sem er frábært og sýnir að mikill áhugi er fyrir hendi hjá stórum hópi fólks að leggja stund á þetta skemmtilega en jafnframt erfiða nám. Námið er forsmekkurinn að því sem tekur við að námi loknu, skemmtilegu en mjög svo krefjandi starfi.
Þessa dagana er verið að fara yfir síðustu umsóknirnar m.t.t. til hæfi umsækjenda, hæfi til að hefja almennt háskólanám og aldursskilyrða til að geta hafið starfsnám hjá lögreglu. Þá er farin af stað vinna við að skoða önnur skilyrði, s.s. sakaferil, ríkisborgararétt og fleiri atriði. Í byrjun næstu viku verður sendur tölvupóstur á umsækjendur þar sem þeir verða boðaðir í fyrri hluta inntökuprófa. Það verður gert þó svo að vinnu við yfirferð varðandi hæfi umsækjenda til námsins verði ekki alveg lokið.
Við ætlum okkur að halda áður auglýsta áætlun varðandi dagsetningar inntökuprófa nú í vor en gætum fært þau til eitthvað aðeins til og þá inn í maí. Áætlunina höldum við í þeirri trú að aflétt verði lokunum á líkamsræktar- og sundstöðum þann 16. apríl næstkomandi. Ef lokunum verður haldið áfram verða dagsetningar inntökuprófa endurskoðar m.t.t. þess.
Hvetjum alla þá er sóttu um lögreglufræðina að halda áfram að æfa sig fyrir þrekprófshluta inntökuprófanna. Leikur einn er að hlaupa utandyra og æfa margskonar stöðvaæfingar með eigin líkamsþyngd. Sundið er erfiðara að æfa þegar allt er lokað en þá er bara að nýta vel þær 2-3 vikur sem líða áður en inntökuprófin hefjast, því við höfum fulla trú á því að sundstaðir opni nú í vikunni.
Gangi ykkur vel kæru umsækjendur