Mánudaginn 13. janúar hófst nám fyrir fangaverði við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar (MSL). Þetta er annar nemendahópurinn sem byrjar námið í samstarfi við Fangelsismálastofnun, sem hluti af þróunarverkefni sem dómsmálaráðuneytið hefur falið MSL að stýra.
Námið byggir á því að auka þekkingu og færni fangaverða í starfi þeirra, með það að markmiði að styrkja verkfærakistu þeirra, til að takast á við krefjandi aðstæður í fangelsum.
Nemendahópurinn samanstendur af 20 einstaklingum, öll eru starfandi fangaverðir. Á setningu fluttu Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, ávörp þar sem þau lögðu áherslu á mikilvægi samstarfs milli stofnana sem vinna með sömu einstaklingum innan réttarkerfisins.