Alls hóf 81 nemandi nám í lögreglufræðum í haust og eru kynjahlutföllin nánast jöfn, 51 prósent konur og 49 prósent karlar. Þetta er í þriðja skiptið, af fjórum áætluðum, sem nemendahópurinn er tvöfaldur að stærð eftir að ráðist var í átak til að fjölga lögreglumönnum árið 2022.
Meðalaldur nýnema í haust er um 24 ár. Athygli vekur að aðeins um 42 prósent nemenda eru starfandi við afleysingarstörf í lögreglu en það er breyting frá fyrri árum, þegar nær allir nemendur störfuðu við afleysingar þegar nám hófst. Opnað var fyrir umsóknir í Lögreglufræði við Háskólann á Akureyri í febrúar síðastliðinn og bárust 205 umsóknir. Um 49 prósent umsækjenda voru konur og 51 prósent karlar.
Alls stóðust 189 umsækjendur skilyrði um háskólanám, 51 prósent konur og 49 prósent karlar. Öll fengu boð í fyrri hluta inntökuprófa sem byggjast á þrek-, sund- og sálfræðiprófum auk málfars- og frásagnarverkefnis. Af þeim 189 umsækjendum sem boðaðir voru í inntökupróf mættu 138.
Rúmlega helmingur stóðst fyrri hluta inntökuprófanna, eða 98, þar af voru 47 prósent konur og 53 prósent karlar. Sex umsækjendur stóðust ekki bakgrunnsskoðun og var synjað um námið, allt karlar. Alls fengu 91 umsækjendur boð í viðtal og að lokum var 87 umsækjendum boðin skólavist en sex drógu umsóknina til baka áður en námið hófst.