Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið – Samfélagslöggæsla

Nú er nýlokið ráðstefnunni Löggæsla og samfélagið en þetta var í sjöunda skiptið sem hún er haldin og var metþátttaka nú í ár. Nemar í lögreglufræðum tóku virkan þátt í ráðstefnunni, ásamt starfsfólki réttarvörslukerfisins og þá mætti fjöldi fræðimanna einnig. Fjölmörg fróðleg og skemmtileg erindi voru flutt og þá gafst einnig tími til að bera saman bækur og ræða málin.

Ráðstefnan er vettvangur þar sem fagfólk og fræðimenn reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. Þema ráðstefnunnar í ár er samfélagslöggæsla. Við samfélagslöggæslu er höfuðáhersla lögð á náið samstarf lögreglu og nærsamfélagsins við löggæslu, afbrotavarnir og úrlausn vandamála til að stuðla að betra og öruggara samfélagi fyrir alla. Samfélagslöggæsla hefur víða gefið góða raun og vel þess virði að fræðast frekar um þessa löggæslunálgun og hvaða lærdóm megi draga af henni.

Til hamingju, Háskólinn á Akureyri, fyrir vel heppnaða ráðstefnu.