Í ljósi þeirrar umfjöllunar sem verið hefur í fjölmiðlum síðustu daga þá vill Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri við umsækjendur um starfsnám. Í maí sl. birti menntasetrið á vef sínum læknisfræðileg viðmið fyrir inntöku nemenda í janúar 2020. Viðmið þessi voru endurskoðuð af teymi þriggja sérfræðilækna og höfðu þeir til viðmiðunar læknisfræðileg viðmið sem lögð eru til grundvallar inntöku í lögreglunám á Norðurlöndunum. Í þeim viðmiðum var ADHD greining útilokandi þáttur. Þann 15. júlí sl. var tekin sú ákvörðun að breyta viðmiðum um ADHD á þann veg að umsækjendur væru ekki útilokaðir frá starfsnámi hér á landi, heldur aðeins að ADHD kunni að vera útilokandi þáttur, sbr. meðfylgjandi texta:
„Greiningin ADHD/ADD getur verið útilokandi þáttur, sérstaklega hjá einstaklingum sem eru á lyfjameðferð vegna ADHD. Hafi umsækjandi fyrri sögu um slíka greiningu þarf viðkomandi að leggja fram vottorð sérfæðilæknis sem lögð verður til grundvallar mati trúnaðarlæknis í hverju tilviki.“ Hver umsækjandi er því metinn með tilliti til þess hvort einkenni kunni að vera hamlandi í lögreglustarfi eða ekki. Þessi skilyrði eiga einnig við um aðrar starfsgreinar hér á landi, ss. flugmenn. Forsendur slíkra skilyrða eru að setja beri hagsmuni almennings ofar öðrum hagsmunum einstaklinga.
Læknisfræilegar kröfur hér á landi taka því mið af sambærilegum viðmiðum á hinum Norðurlöndunum. Þá eru kröfur og reglur endurskoðaðar árlega í samræmi við nýjustu rannsóknir og þekkingu hverju sinni.