Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hefur gefið út matsskýrslu um nám í stjórnun lögreglurannsókna sem fram fór á tímabilinu september 2017 til mars 2018. Námið var með blönduðu sniði, þ.e. fjarnám í gegnum kennsluvef og staðlotum, og voru þátttakendur bæði reyndir rannsóknarlögreglumenn og ákærendur hjá lögregluembættum landsins. Náminu var stýrt af Dr. Andy Griffiths og Dr. Ivar Fahsing.
Markmið námsins var að þróa þá færni sem þátttakendur bjuggu þegar yfir við rannsóknir alvarlegra sakamála. Markmiðið var einnig að gera þátttakendum kleift að stýra og samhæfa meiriháttar lögreglurannsókn í samræmi við lög, árangursríkar forvarnaleiðir, vísindarannsóknir og siðferðisviðmið.
Mat á náminu fór fram með mælingum bæði áður en námskeiðið hófst og að því loknu. Niðurstöður benda til þess að nemendur hefðu færni til að setja fram mun fleiri tilgátur er benda til sakleysis auk sektar. Ákvarðanir teknar með slíkum hætti eru mun ólíklegri til að leiða til mistaka við rannsóknir mála, ss. falskra játninga, rangtúlkunar á sönnunargögnum og framburði.
Matsskýrsluna má nálgast hér en niðurstöður hennar verða kynntar fyrir lögreglumönnum og ákærendum á ráðstefnu um rannsóknir sakamála sem fer fram föstudaginn 4. október 2018.