Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hefur það að leiðarljósi að beita gagnreyndum aðferðum við þjálfun lögreglu. Mikilvægur áfangi var tekinn í þessa átt 27. til 30. mars sl. þegar teymi kanadískra og finnskra sérfræðinga kom hingað til lands til að þjálfa þjálfara lögreglu í aðferðafræði iPREP. Aðferðin felur í sér þjálfun í streitustjórnun þar sem notast er við lífeðlisfræðilega endurgjöf og er þjálfuninni síðan beitt við raunhæfar æfingar til að yfirfærsla náist. Aðferðirnar auka yfirvegun til ákvarðanatöku og minnka líkurnar á rörsýn (tunnel vision). Fjöldi rannsókna hefur stutt við gagnsemi aðferðanna sem nefnast iPREP og lesa má gagnlega samantekt hér.
Alls tóku 20 þjálfarar lögregluembætta landsins þátt í námskeiðinu en auk þátttakenda og fimm erlendra sérfræðinga voru um 10-15 starfsmenn lögreglu og nemendur í lögreglufræði við HA sem studdu við verkefnið beint með því að leika í raunhæfum aðstæðum, sjá um tækjabúnað, aðgæslu öryggis og önnur tilfallandi verkefni.
Áður höfðu Dr. Judith Andersen prófessor við Toronto háskóla og Steve Poplawski lögregluþjálfari við Ontario lögregluna, komið hingað til lands til að kynna okkur aðferðarfræðina og héldu þau meðal annars opið hádegiserindi á Grand Hóteli 21. nóvember sl. fyrir lögreglumenn um leiðir til að bæta frammistöðu í aðstæðum sem alla jafna kalla fram á mikla streitu, þ.e. seigluþjálfun.