Þann 28. nóvember s.l heimsótti Wil van Gemert aðstoðarforstjóri Evrópsku lögreglustofnunarinnar Europol Ísland. Var hann aðalfyrirlesari á fræðsludegi stjórnenda lögreglu og tollyfirvalda á Íslandi.
Markmið fræðsludagsins var að fræðast um þróun og stöðu mála er varða skipulagða brotastarfsemi í Evrópu og helstu ógnir sem íslensk yfirvöld standa frammi fyrir. Þar kemur til aukins samstarfs lögreglu og tollaembætta sem meðal annars reka saman Tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol í Den Haag í Hollandi.
Wil van Gemert er aðstoðarforstjóri Europol og stýrir aðgerðarhluta stofnunarinnar (Operation Department) sem m.a aðstoðar aðildar og samstarfslönd við kortlagningu og rannsóknir á málum sem varða skipulagða brotastarfsemi og hryðjuverk. Wil van Gemert hefur langa reynslu sem stjórnandi hjá Hollenskum lögregluyfirvöldum áður en hann hóf störf fyrir Europol. Hann hefur stýrt rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi á netglæpum og hryðjuverkum auk þess að stýra alþjóðlegu samstarfi Hollenskra yfirvalda.
Góður rómur var gerður af erindi van Gemert enda um gríðarlega mikilvægt málefni að ræða. Íslenski veruleikinn var síðan krufin eftir hádegið á fræðsludeginum þar sem erindi frá héraðssaksóknara, frá Lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu og frá Tollstjóra voru flutt og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri stýrði ráðstefnunni.
Van Gemert nýtti tímann vel hér á landi og hitti fulltrúa stýrihóps sem skipaður var til að stýra samstarfi lögreglu og tolls við Europol og þess starfs sem þar er unnið. Stýrihópurinn er settur saman af þremur lögreglustjórum, frá RLS, LRH, Suðurnes, héraðssaksóknara og tollstjóra. Einnig hitti Gemert fulltrúa frá innanríkisráðuneyti og fjölmiðla. Mikill áhugi er fá fleiri fulltrúa frá alþjóðlegum lögreglu- og tollayfirvöldum til að miðla þeim veruleika sem blasir við alþjóðlega umhverfinu.