Fyrsta lota í námi um rannsóknir sakamála

Í dag mættu til mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu 23 nemendur í nýju námi um rannsóknir sakamála. Námið er fyrir þá sem starfa við rannsóknir eða hafa hugsað sér að starfa á þeim vettvangi. Þeir lögreglumenn sem ljúka námskeiðinu með fullnægjandi hætti uppfylla  skilyrði skv. 3. mgr. 14. greinar reglugerðar um starfsstig innan lögreglunnar nr. 1051/2006 um skipun til starfa og öðlast einnig rétt til að sækja sérstök rannsóknarnámskeið.

Námið er nýtt og verður í stöðugri þróun en fyrirmynd námsins er fengin frá norska lögregluháskólanum þar sem innihald, námslengd og fyrirkomulag verður með svipuðum hætti. Hæfniviðmið námsins eru eftirfarandi:

Nemendur hafi eftir námskeiðið: 1) Aukna innsýn – þekkingu og öryggi í starfinu, 2) Geti unnið sjálfstætt að rannsóknarverkefnum, 3) Þekki og geti fjallað um viðeigandi siðferðileg vandamál við rannsóknir, 4) Beri ábyrgð á eigin þróun innan fagsins, 5) Þekkingu til að beita rannsóknaraðferðum

Helstu áhersluatriði námskeiðsins eru: 1) Markmið rannsókna, reglur og gæði, 2) Rannsóknaraðferðir og skilningur á aðferðarfræði, 3) Skipulag og hagnýt framkvæmd rannsókna