Áhrifaríkt námskeið um málefni vændis

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og lögregluna á Suðurnesjum, hélt fræðslufund þriðjudaginn 24. apríl um málefni tengdum vændi. Í kjölfarið var haldið námskeið fyrir rannsakendur lögreglunnar um þetta mikilvæga málefni. Á þessu námskeiði fóru lögreglumenn meðal annars í aðgerðir í liðinni viku sem beindust gegn vændisstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrirlesarar og stjórnendur námskeiðs voru tveir fulltrúar frá sænsku lögreglunni, Per Englund og Stefan Adamson sem eru sérfræðingar í mansalsmálum og þá sérstaklega málefnum tengdum vændi. Eins og þekkt er hafa Svíar verið brautryðjendur í að marka löggjöf um bann við kaupum á vændi en að löglegt sé að stunda vændi (svokölluð „sænska leiðin“).

Á fræðslufundinum var farið yfir lagaumhverfi er tengjast vændi og hvernig við framfylgjum þessum lögum og þá hvernig hægt væri að yfirfæra sænsku aðferðina miðað við íslenskt lagaumhverfi. Einnig var farið yfir það hvernig leitað er upplýsinga á netinu og hvernig eftirliti er háttað.

Fulltrúar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum og Vesturlandi sóttu námskeiðið og tóku þátt í aðgerðum sem fóru fram á höfuðborgarsvæðinu.

Í ofangreindum aðgerðum höfðu lögreglumenn afskipti af 2 aðilum sem grunaðir voru um kaup á vændi og voru þeir kærðir fyrir brot sín. Þá hafði lögregla afskipti af 9 aðilum sem stunda vændisstarfsemi. Aðilar í vændisstarfsemi voru allir með opinberar auglýsingar með tilvísun í kynlífsþjónustu og var þeim bent á að fjarlægja þær af internetinu þar sem slíkt er ólöglegt. Þá hafði lögregla einnig samband við eigendur þeirra íbúða sem vændisstarfsemi fór fram í og upplýsti um aðgerðir sínar. Gríðarlega mikilvægt námskeið þar sem þátttakendum gafst færi á að flétta saman bóklegri og verklegri kennslu.

 

Þessi fræðsla og aðgerðir tengjast auknum áherslum lögreglunnar á þennan mikilvæga og því miður ört vaxandi málaflokk.