Umsóknarfresti í starfsnám í lögreglufræði lýkur 9. apríl en eins og fram hefur komið er sótt um í lögreglufræði í gegnum heimasíðu Háskólans á Akureyri. Búast má við að einhvern tíma taki að fara í gegnum umsóknir m.t.t. almennra skilyrða samkvæmt 38. gr. lögreglulaga. Sendur verður tölvupóstur til umsækjenda þegar þeirri vinnu lýkur, með upplýsingum varðandi bókun á tíma í inntökupróf eða ástæðu höfnunar á umsókn.
Í ár er inntökuprófum vegna starfsnáms skipt upp í tvo hluta. Fyrri hluti inntökuprófanna hefst 29. apríl og er reiknað með að þeim verði lokið 5. maí. Fyrri hluta þessa prófs er skipt upp í þrek- og sundpróf sem framkvæmd verða fyrir hádegi. Eftir hádegi þurfa þeir sem standast þrekprófshlutann að þreyta verkefni þar sem reynir á frásögn og ritun og einnig svara spurningum er snúa að sálfræðimati á viðkomandi.
Seinni hluti inntökuprófanna hefst 12. maí og reiknað er með að þeim verði lokið 21. maí. Einungis þeir umsækjendur er standast fyrri hluta inntökuprófanna mæta í seinni hlutann. Þessi hluti byggist á hópaverkefni og viðtali en reikna má með 3 til 4 klst. í þetta verkefni.
Áréttum þá breytingu á umsóknarferlinu nú í ár að læknisskoðun verður framkvæmd af trúnaðarlækni lögreglu við lok umsóknarferilsins. Einungis þeir 44 sem teljast hæfastir, að mati Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu, munu gangast undir þá skoðun.