Brautskráning í Lögreglufræði 2021

Laugardaginn 12. júní síðastliðinn brautskráði Háskólinn á Akureyri 38 lögreglufræðinema með diplómapróf í lögreglufræðum. Þá brautskráðust einnig 37 kandídatar með BA próf í lögreglu- og löggæslufræðum, margir þeirra starfandi sem lögreglumenn. Athöfnin tókst vel en ekki var hægt að taka móti gestum og var henni því streymt á veraldarvefnum.

Heiðursgestur brautskráningarinnar var Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari. Hún talaði til kandídata af einlægni og reynslu og ráðlagði þeim m.a. inn í framtíðina að nauðsynlegt væri að geta skilið á milli vinnu og einkalífs, störf koma og fara en fjölskyldan, vinir og heilsan er eitthvað sem við viljum halda í.

Viðurkenningar fyrir góðan námsárangur fengu þau Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, BA í lögreglu- og löggæslufræði og Hallgrímur Helgi Hallgrímsson, lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn. Guðrún Gróa fékk einnig viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á Hug- og félagsvísindasviði. Embætti ríkislögreglustjóra og landssamband lögreglumanna verðlaunaði þau fyrir þennan frábæra námsárangur með veglegri bókargjöf.

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu óskar nýútskrifuðum lögreglumönnum og BA kandídötum í lögreglu- og löggæslufræðum innilega til hamingju með brautskráninguna.