Þeir sem hafa hug á að verða lögreglufræðingar með starfsréttindi þurfa að kynna sér hvort þeir fullnægi þeim skilyrðum sem gerð eru í lögreglulögum, til starfsins áður en lengra er haldið.  

Í lögum nr. 90/1996, lögreglulögum, eru tilgreind þessi skilyrði, þar segir m.a. að viðkomandi skuli:

1.  vera íslenskir ríkisborgarar, 20 ára eða eldri,

2.  ekki hafa gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,

3. vera andlega og líkamlega heilbrigðir og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um í samstarfi við háskóla,

4.  hafa lokið stúdentsprófi eða annarri sambærilegri menntun,

5.  standast nánari kröfur sem ráðherra setur með reglugerð, á grundvelli tillagna frá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, m.a. um menntun, starfsþjálfun, tungumálakunnáttu og líkamlega færni.

6. Hafa gild ökuréttindi.

Sótt er um lögreglufræðinámið hjá Háskólanum á Akureyri (HA) og er opnað fyrir umsóknir að vori, fyrir nám sem hefst að hausti.

Þegar Háskólinn á Akureyri hefur samþykkt nemendur inn í lögreglufræðanámið  auglýsir mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) eftir nemum í starfsnám hjá lögreglu, sem hefst á öðru misseri lögreglufræðinámsins. Skil á umsóknum eru í september ár hvert ásamt læknisvottorði og þrekpróf, sálfræðimat og verkefni fara fram í október.

Fyllt er út umsókn um starfsnám hjá lögreglu, henni skilað til MSL og þarf viðkomandi einnig að gangast undir læknisskoðun þar sem líkamlegt heilbrigði er kannað. Trúnaðarlæknir lögreglunnar tekur við læknisfræðilegum gögnum og metur hvort viðkomandi standist þær kröfur sem gerðar eru um líkamlegt heilbrigði til að geta hafið starfsnám.

Þegar ofangreindu ferli er lokið og allar kröfur eru uppfylltar, þreyta umsækjendur þrekpróf. Prófið byggist á 2.000 metra hlaupi, fjórum stöðvaæfingum (langstökki, upphífingum/niðurtogi, spretthlaupi og bekkpressu). Prófinu líkur með 200 metra sundi og köfunaræfingu.

Standist umsækjandi þrekkröfur tekur við sálfræðimat og verkefni. Niðurstöður þess eru notaðar, ásamt öðrum gögnum, við viðtali í lok umsóknarferilsins. Í viðtalið fara einungis umsækjendur sem MSL telur hæfa til starfsnáms hjá lögreglu, hafa staðist bakgrunnskoðun og aðrar kröfur sem eru gerðar eru til þeirra. Að viðtali loknu tekur við sjálft valferlið. Þá eru niðurstöður prófa úr grunnfögum lögreglufræðinnar við HA, niðurstöður úr þrekprófi og frammistaða í viðtali, teknar saman og nemar valdir í starfsnám hjá lögreglu. Takmarkaður fjöldi nema er valinn ár hvert í starfsnám og getur sá fjöldi verið nokkuð mismundandi á milli ára.

Inntökuþrekpróf og læknisvottorð gilda ekki milli ára. 

ATH. Verði nemandi valinn í starfsnám þarf hann að ljúka almennu skotvopnanámskeiði á vegum Umhverfisstofnunar á eigin kostnað áður en starfsnám II hefst.

Umsóknareyðublað fyrir starfsnám sem hefst í janúar 2020 má nálgast hér. Opnað var fyrir umsóknir 26. júní og umsóknarfrestur er til og með 2. september 2019.

Handbók um inntöku lögreglufræðinema Háskólans á Akureyri í starfsnám hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu (MSL) er að finna hér: