— Svona sækirðu um

Umsóknarferlið

Kynntu þér lögreglufræðina

Umsóknarfresti er lokið fyrir nám sem hefst haustið 2024.

Opnað verður fyrir umsóknir á ný í febrúar 2025

Fyrstu skrefin


Sótt er um á heimasíðu Háskólans á Akureyri (HA) um nám í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn, hér.

Opið er fyrir umsóknir á tímabilinu 15. febrúar til og með 26. mars 2024. Námið hefst í lok ágúst 2024.

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi, lokaprófi frá framhaldsskóla á þriðja hæfniþrepi, sambærilegu prófi eða að lágmarki 60 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla. Inntaka í námið er jafnframt háð inntöku í starfsnám á vegum mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) í samvinnu við HA.

Til þess að umsókn teljist gild þarf umsækjandi meðal annars að samþykkja að fram fari bakgrunnsskoðun á honum sem framkvæmd er af MSL sbr. 38. gr. lögreglulaga.

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu í samráði við Háskólann á Akureyri metur hverjir umsækjenda eru hæfir og uppfylla almenn skilyrði.

Umsækjendur sem standast skilyrði a og d-liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga, eru boðaðir í fyrri hluta inntökuferils. Bakgrunnsskoðun og læknisskoðun samkvæmt b og c-lið sömu laga fer fram á síðari hluta inntökuferilsins.

Brýnt er fyrir umsækjendum að kynna sér vel þau hæfisskilyrði sem gerð eru til umsækjenda áður en sótt er um í námið.

Handbók um inntökuferlið má finna hér en þar eru ítarlegar upplýsingar um ferilinn sjálfan og þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda.

Fyrirspurnir í tengslum við starfsnámið skal senda á netfangið starfsnam@logreglan.is  

Skilyrði til náms


Hvað þarf að gera og hvað þarf að uppfylla til að geta hafið nám í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn?

Í 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og reglugerð um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu nr. 221/2017 eru tilgreind þau skilyrði sem umsækjandi um lögreglunám þarf að uppfylla. Þar segir m.a. að viðkomandi skuli:

a. vera íslenskir ríkisborgarar, 19 ára á inntökuári eða eldri,

b. ekki hafa gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,

c. vera andlega og líkamlega heilbrigðir og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um í samstarfi við háskóla,

d. hafa lokið stúdentsprófi eða annarri sambærilegri menntun,

e. standast nánari kröfur sem ráðherra setur með reglugerð, á grundvelli tillagna frá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, m.a. um menntun, starfsþjálfun, tungumálakunnáttu og líkamlega færni,

f. hafa gild ökuréttindi.

Umsækjendur sem standast skilyrði a og d liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 221/2017 taka þátt í fyrri hluta inntökuferilsins.

Þeir umsækjendur sem standast öll skilyrði 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 að frátöldum c lið (heilbrigðiskröfur og læknisskoðun) og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 221/2017 eru boðaðir síðari hluta inntökuferilsins.

Læknisskoðun trúnaðarlæknis mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu fer fram í lok ferlisins. Þeir sem fá boð í læknisskoðun eru þeir sem koma til greina í námið.

Nauðsynlegt er að umsækjendur séu komnir með fullnaðarökuskírteini fyrir B-flokk þegar námið hefst. Í reglugerð um ökuskírteini nr. 830/2011 segir m.a. að ökumaður ökutækis sem skráð er til neyðaraksturs skuli hafa fullnaðarskírteini fyrir B-flokk og gild ökuréttindi til að stjórna ökutæki eftir því sem við á.

Ákvörðun um hvaða umsækjendum er boðin innganga í námið byggist á heildarmati, sem eru m.a. niðurstaða þrekprófs og sálfræðimats, mati læknis, framkomu, hæfni í mannlegum samskiptum, sakavottorði og sakaferli að öðru leyti, auk frammistöðu í viðtali og öðrum verkefnum.

Bakgrunnsskoðun


Í bakgrunnsskoðun fellst m.a. að skoðuð eru afskipti og samskipti lögreglu við umsækjenda sem eru skráð í málaskrá lögreglu. Þá er fjárhagsstaða umsækjenda skoðuð m.t.t. til þess að hvort viðkomandi sé í fjárhagsvanda sem gæti haft áhrif á störf viðkomandi í lögreglu.

Frekari upplýsingar um bakgrunnskoðun er að hægt að finna með því að smella á kynningarmyndskeið hér að neðan:

Heilbrigðiskröfur


Umsækjandi skal vera andlega og líkamlega heilbrigður og standast læknisskoðun í samræmi við viðmið mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) til að geta talist að fullu fær til að gegna starfi lögreglumanns. Umsækjandi sem kemur til greina í starfsnám MSL þarf að undirgangast læknisskoðun. Umsækjandi ber sjálfur kostnað af læknisskoðuninni.

Umsækjandi verður að kynna sér vel þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðis áður en sótt er um nám í lögreglufræði. Umsækjandi sem kemur til greina að hefja nám þarf að undirgangast læknisskoðun og mögulega ítarlegra mat í samræmi við viðmið um heilbrigði sem gefin eru út af mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu í samræmi við lögreglulög nr. 90/1996 og reglugerð nr. 221/2017. Standast þarf kröfurnar til að hljóta sæti í náminu. Umsækjendur gangast undir sálfræðimat þar sem lagt er mat á persónuleika, minni, sálrænt ástand og samskipti. Athuganir þessar hafa verið notaðar víðs vegar um heim í inntökuferli á lögreglunemum. Prófin eru talin bæði áreiðanleg og réttmæt í þeim tilgangi.

Viðmið um heilbrigði eru sambærilegar við kröfur sem gerðar eru á hinum Norðurlöndunum og er að finna hér fyrir neðan:

Inntökuferill


Umsækjandi sem stenst skilyrði a og d-liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga, fær boð um þátttöku í fyrri hluta inntökuferils sem haldin verða í fyrri hluta apríl að þessu sinni og tekur einn dag. Prófað er í þreki en einnig er lagt fyrir umsækjendur skriflegt frásagnarverkefni og sálfræðimat.

Líkamlegt atgervi umsækjenda er kannað með því að láta þá þreyta þrekpróf þar sem reynir á snerpu, styrk, þol og sundkunnáttu. Það er gert með heimild í 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 6. gr. reglugerðar nr. 221/2017. Þrekprófið skiptist í þrjá þætti, hlaup, stöðvaæfingar og sund. Umsækjandi verður að ljúka hverjum þætti þrekprófsins með fullnægjandi árangri. Gerð er krafa um að æfingarnar séu framkvæmdar samkvæmt fyrirmælum prófdómara.

Ljúki umsækjandi ekki einhverjum þætti þrekprófsins með fullnægjandi árangri er þátttöku hans í inntökuferlinu lokið og kemur þ.a.l. ekki greina í námið að sinni.

Hér er að finna kynningarmyndskeið um þrekprófið. Nánari leiðbeiningar er hægt að finna á pdf skjali fyrir neðan myndskeiðið.

Skriflegt frásagnarverkefni


Umsækjandi þarf að mæta með fartölvu í þennan þátt inntökuferilsins. Verkefnið fer þannig fram að umsækjendur horfa saman á stutt myndskeið sem þeir síðan rita 200-300 orða atvikalýsingu um. Þetta er einstaklingsverkefni en hjálpargögn eru heimil, eins og t.d. orðapúki, skrambi.arnastofnun.is og yfirlestur.is o.þ.h.

Við mat á frammistöðu er horft til málfars, stafsetningar og hvernig umsækjanda tekst til með að koma frá sér rituðum texta.

Hér er að finna kynningarmyndskeið um verkefnið:

Síðari hluti inntökuferils


Þeir umsækjendur sem standast fyrri hluta inntökuferils og bakgrunnsskoðun eru boðaðir í síðari hluta inntökuferils. Sá hluti ferilsins byggist á viðtali sem tekur um 45 mínútur.

Viðtalið er tekið af lögreglumönnum og sérfræðingum innan lögreglunnar sem hafa fengið þjálfun og fylgja hálfstöðluðu viðtalsformi. Svör umsækjenda verða skráð á meðan viðtali stendur.

Um persónuvernd


Persónuvernd

Umsækjendur eru hvattir til þess að kynna sér vel meðferð persónuupplýsingar í tengslum við umsóknarferlið.