— Meðferð upplýsinga umsækenda ofl.

Persónuvernd

Fræðsla um persónuvernd


Fræðsla Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar til umsækjanda um nám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri

Persónuverndarfræðsla þessi inniheldur upplýsingar til umsækjanda um nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn við Háskólann á Akureyri. Varðandi hvaða persónuupplýsingum verður safnað og unnið með, hvað er gert við þær, með hverjum þeim er deilt og hvers vegna, sem og þeim réttindum sem umsækjandi hefur. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (einnig vísað til sem MSL) vinnur með persónuupplýsingarnar í samræmi við lög nr. 90/2019 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016.

MSL vinnur í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri þegar kemur að vali nemenda en háskólinn kemur ekki að bakgrunnskoðun umsækjenda eða vinnslu annarra viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. fjárhagsstöðu eða heilsufarsupplýsinga.

Ábyrgðaraðili


Ríkislögreglustjóri, kt. 530697-2079, Skúlagötu 21, 101 Reykjavík, er ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga. Hægt er að hafa samband í síma 444-2500 en einnig á netfangið starfsnam@logreglan.is eða rls@rls.is.

Söfnun


Með hvaða persónuupplýsingar er unnið?

MSL vinnur með eftirfarandi upplýsingar:

· samskiptaupplýsingar, svo sem nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer og tölvupóstfang

· upplýsingar um vinnustað

· upplýsingar um starfsferil

· upplýsingar um námsferil

· ríkisborgararétt og aldur

· ökuréttindi

· fylgiskjöl með umsókn, svo sem ferilskrá eða önnur gögn sem umsækjandi afhendir með umsókn

Við val á nemum vinnur MSL einnig eftirfarandi persónuupplýsingar en það fer eftir því hversu langt umsækjandi kemst í umsóknarferlinu hvaða persónuupplýsingar er unnið með:

· niðurstöður úr inntökuprófum

· brotaferil og upplýsingar úr málaskrá lögreglu

· fjárhagsstöðu

· heilsufarsupplýsingar úr læknisskoðun og sálfræðimati

· aðrar upplýsingar sem koma fram í viðtölum og frá umsagnaraðilum

Hefji umsækjandi nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn vinnur MSL einnig með eftirfarandi upplýsingar, á námstímanum:

· brotaferil og upplýsingar úr málaskrá lögreglu

· einkunnir

· ökuréttindi

· staðfestingu á skotvopnaprófi

Nánari upplýsingar um umsóknarferlið má nálgast á heimasíðu MSL, menntaseturlogreglu.is

Vinnsla


Hvaða vinnsla fer fram og í hvaða tilgangi?

Megintilgangur vinnslu er að velja hæfustu einstaklinga úr hópi umsækjanda um nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn og á grundvelli heimildar/skyldu um inntökuskilyrði nema í starfsnám hjá lögreglu samkvæmt 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 221/2017 um mennta-og starfsþróunarsetur lögreglu.

MSL velur nema í lögreglufræðinám í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Vinnslan hefst með því að umsækjandi skilar inn umsókn á heimasíðu Háskólans á Akureyri um nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn.

Almenn krafa er að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi, að þeir séu 20 ára, hafi íslenskan ríkisborgararétt og gild ökuréttindi. Upplýsingarnar koma frá umsækjendum, úr þjóðskrá og ökuskírteinaskrá. Ef umsækjandi uppfyllir framangreind skilyrði og stenst fyrri hluta inntökuprófa, er gerð könnun á brotaferli en skilyrði þess að komast inn í lögreglufræðinám og að starfa hjá lögreglunni er að hafa ekki gerst brotlegur við refsilög. Þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Til að sannreyna slíkt er MSL heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu. Þá er einnig gerð könnun á fjárhagsstöðu umsækjanda en sá sem er með fjármál í óreiðu, t.d. er gjaldþrota eða í óeðlilega miklum skuldum eða ábyrgðum getur búist við því að hljóta ekki inngöngu í námið. Upplýsinga um fjárhagsstöðu umsækjanda er gerð með könnun hjá Creditinfo.

Þeir umsækjendur sem standast skilyrði a og d-liðar 1. mgr. 38. gr. lögreglulaga, er boðið í fyrri hluta inntökuprófa. Prófað er í þreki en einnig er lagt fyrir umsækjendur sálfræðimat og verkefni þar sem lagt er mat á persónuleika, minni og sálrænt ástand. Þá er einnig lagt fyrir nemendur skriflegt frásagnarverkefni. Bakgrunns- og læknisskoðun samkvæmt b og c-lið sömu laga fer fram á síðari stigum inntökuferilsins ásamt því að viðtöl við umsækjendur eru tekin. Fyrrgreindar upplýsingar eru skráðar í inntökuferlinu.

Að lokum er innganga í lögreglufræðinám byggð á heildarmati og höfð hliðsjón af fyrrgreindum matsþáttum.

Þeir umsækjendur sem koma til greina þurfa að standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem MSL setur reglur um. Trúnaðarlæknir sér um að meta heilbrigði umsækjanda og veitir mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu upplýsingar um hvort að umsækjandi uppfylli heilbrigðiskröfur. Slíkt er gert á grundvelli samnings við trúnaðarlækni.

Miðlun


Til hverra er persónuupplýsingum umsækjenda miðlað?

MSL velur nema í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn í samstafi við Háskólann á Akureyri sem fær að lokum upplýsingar um þá umsækjendur sem standast öll inntökuskilyrði og teljast hæfastir.

Persónuupplýsingarnar eru ekki afhentar til utanaðkomandi aðila nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla, dómsúrskurðar, samþykki umsækjandaeða á grundvelli verktaka- og/eða vinnslusamnings við þriðja aðila. MSL nýtir þannig þjónustu trúnaðarlæknis og eftir atvikum semur við þriðja aðila um að sinna tilteknum þáttum í umsóknarferlinu.

Varðveisla gagna

Ríkislögreglustjóri er afhendingarskyldur aðili á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og er því óheimilt að farga eða eyða nokkru skjali nema með heimild þjóðskjalavarðar.

Réttindi umsækjanda


Umsækjandi á að jafnaði rétt á að óska eftir aðgangi að og eftir atvikum afriti af þeim persónuupplýsingum sem unnið var um hann sem og að fá upplýsingar um vinnsluna. Hann getur einnig átt rétt að aðgangi að gögnum um sig samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem fjallað er um rétt til aðgangs að málsgögnum, og samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Meta þarf hvert tilvik þar sem ákveðin skörun getur verið á milli lagabálka.

Umsækjandi getur átt rétt á að fá rangar eða villandi upplýsingar um sig leiðréttar. Að jafnaði er þó ekki heimilt að láta eyða eða breyta persónuupplýsingum, vegna fyrrgreindrar skilaskyldu til Þjóðskjalasafns, en þá getur leiðrétting fylgt með gögnunum.

Umsækjandi á rétt á að andmæla vinnslu persónuupplýsinga og biðja um að vinnsla sé takmörkuð í ákveðnum aðstæðum. Á heimasíður Persónuverndar má lesa nánar um réttindi einstaklinga.

Telji umsækjandi að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við lög eða reglugerðir, getur hann lagt fram kvörtun til Persónuverndar, https://www.personuvernd.is/.

Hvernig er öryggi persónuupplýsinga tryggt?


Öryggi persónuupplýsinga

Lagt er mikið upp úr því að tryggja öryggi persónuupplýsinga og grípa til viðeigandi tæknilegra og skipulegra ráðstafana til að vernda persónupplýsingarnar. Dæmi um slíkar öryggisráðstafanir eru aðgangsstýringar, aðgerðarskráningar til að tryggja rekjanleika aðgerða og dulkóðun gagna og sendinga. Tölvu- og upplýsingakerfi ríkislögreglustjóra eru rekið á lokuðu víðneti lögreglunnar og hýst hjá ríkislögreglustjóra.

Aðrar upplýsingar


Nánari upplýsingar um persónuvernd hjá lögreglunni má finna á heimasíðu lögreglunnar, https://www.logreglan.is/personuverndarstefna/

Nánari upplýsingar um persónuvernd Háskólanum á Akureyri má finna á heimasíðu háskólans, https://www.unak.is/is/haskolinn/stefnur-og-aaetlanir/personuvernd

Ef umsækjandi hefur athugasemdir eða spurningar varðandi vinnslu persónuupplýsinga um sig getur hann haft samband við persónuverndarfulltrúa ríkislögreglustjóra í gegnum netfangið personuvernd@logreglan.is. Jafnframt má hafa samband með því að senda tölvupóst á starfsnam@logreglan.is eða með því að hringja í síma 444-2500.