Starfsnám í lögreglufræðum er mikilvægur þáttur í lögreglufræðanáminu en til að öðlast starfsréttindi sem lögreglumaður verða lögreglufræðinemar að ljúka starfsnámi hjá lögreglu.

Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) annast og skipuleggur verklega hluta starfsnámsins í samstarfi við HA. Áhersla er lögð á verklega lögreglutengda þjálfun og raunhæf verkefni. Starfsnámið er forsenda þess að fá starfsréttindi sem lögreglumaður.

Starfsnámið er kennt í 5 daga lotum og fer að mestu fram í húsnæði MSL í Reykjavík. Starfsnámið hefst á haustmisseri 1. árs og byrjar 1. mánudag í september ár hvert. Mætingarskylda er í starfsnámslotur MSL.

Á fjórða og síðasta misseri fara stúdentar í starfsþjálfun. Það eru 12 einingar og skyldumæting. Bak við hverja einingu er 25-30 klst. í starfsþjálfun hjá lögregluembættum landsins. Stúdentar velja sér starfsþjálfunarembætti og er reynt að verða við þeim óskum. Þar eru stúdentar undir handleiðslu reyndra lögreglumanna sem stýra stúdentum við almenn lögreglustörf. Stúdentar fá einnig innsýn í störf rannsóknarlögreglu ásamt fleiri þáttum lögreglustarfsins. Handleiðarar lögreglu gefa að lokum umsögn sem vegur þungt í heildstæðu mati á frammistöðu stúdentsins í öllu starfsnáminu.