Lögreglufræði

Diplómanám í lögreglufræðum

Lögreglufræði (e. Police Science) er sú fræðigrein sem fjallar um viðfangsefni löggæslu í víðu samhengi og nám í lögreglufræði miðar að því að veita nemendum haldgóða undirstöðufærni í því að fyrirbyggja og upplýsa um brot á lögum og að tryggja almennt öryggi borgaranna.

 

 

Möguleikar að námi loknu

Nám í lögreglufræði undirbýr lögreglumenn fyrir samskipti við margvíslega ólíka hópa í fjölbreyttu samfélagi og samstarf við ýmsar aðrar fagstéttir, svo sem starfsfólk heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þeir sem ljúka námi í lögreglufræði geta farið til starfa við löggæslustörf en þeir hafa jafnframt möguleika til sérhæfingar á ólíkum viðfangsefnum svo sem sérsveitarstörfum, stjórnun lögregluembætta, ofbeldi í nánum samböndum, mansali, rannsókn efnahagsbrota, alþjóðlegu hjálpar- og þróunarstarfi og fræðastarfi á háskólastigi svo fátt eitt sé nefnt. Bakkalárnámið leggur grunn að ólíkum leiðum í námi og starfi.

Nám í lögreglufræði undirbýr nemendur einnig fyrir störf um land allt. Starfsvettvangur lögreglumanna spannar allt frá stórum og öflugum stofnunum í mesta þéttbýlinu til fámennra og víðfeðmra svæða þar sem sami einstaklingurinn þarf að ganga í nánast öll störf. Sköpun og miðlun þekkingar á háskólastigi tekur mið af mismunandi aðstæðum og gera lögreglumönnum kleift að sinna störfum víðsvegar um land eftir því sem þörf krefur.

Sveigjanlegt nám

Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á sveigjanlegt nám þar sem búseta nemenda getur verið með margvíslegum hætti. Um helmingur nemenda við Háskólann á Akureyri velur að stunda staðarnám sem gefur færi á samskiptum við kennara og samnemendur í raunheimum en um helmingur stundar nám í heimabyggð annars staðar á landinu þar sem slík samskipti fara fram með rafrænum hætti. Eftir því sem tækninni hefur fleygt fram hafa skilin milli staðarnáms og fjarnáms orðið sífellt óskýrari og búseta hefur sífellt minni áhrif á námsumhverfi og samskipti nemenda. Þannig sækja staðarnemar jafnt sem fjarnemar fyrirlestra af netinu og blandast saman í umræðu- og verkefnahópum.

Nemendur við Háskólann á Akureyri geta valið sér búsetu eftir áhuga og þörfum. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast starfsnám nema í lögreglufræði í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

Skilyrði til starfsnáms

Nemendur sem óska eftir að innritast í nám í lögreglufræði á haustmisseri 1. árs þurfa enn fremur að staðfesta að viðkomandi hafi kynnt sér ákvæði laga nr. 90/1996 þar sem segir að nemar í starfsnámi skuli fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:

 1. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu auglýsir eftir nemendum í starfsnám og velur nema í starfs­­nám í samstarfi við háskóla.Nemar í starfsnámi skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
  1. vera íslenskir ríkisborgarar, 20 ára eða eldri,
  2. hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,
  3. vera andlega og líkamlega heilbrigðir og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um,
  4. hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun,
  5. hafa staðist kröfur um þrek og styrk skv. viðmiðum sem mennta- og starfsþróunarsetur setur,
  6. hafa gild almenn ökuréttindi.