1. Páll Janus Þórðarson lögreglumaður
Af hverju ákvaðst þú að fara í lögregluna?
Það má segja að ég hafa verið narraður í að prófa ballvaktir og afleysingar sem héraðslögreglumaður, en eftir fyrsta veturinn sem slíkur varð eiginlega ekki aftur snúið. Þarna hafði ég fundið mína hillu og réði ég mig í fullt starf við löggæslu strax sumarið eftir. Á þessum tíma var lögreglunámið í ákveðinni óvissu svo ég starfaði í um tvö ár áður en að mér hugnaðist að hefja nám við lögreglufræði í Háskólanum á Akureyri.
Hvað fannst þér þú helst hafa lært af náminu og starfinu?
Stærsti lærdómurinn úr starfinu hefur sennilega verið að taka aldrei nokkrum hlut sem gefnum, alveg sama í hvaða samhengi maður vill túlka það. Sama hvort það sé einfaldir hlutir eins og kurteis kveðja frá samborgara, áreiðanleiki frásagnar, eða það að geta farið heim að lokinni vakt og hitt fjölskyldu sína og vini. Því lengur sem maður sinnir lögreglustarfinu því betur áttar maður sig á því að það er ekki öllum gefin sömu spil á hendi og maður skal þakka fyrir það sem maður hefur.
Hvað námið varðar þá held ég að mesti lærdómurinn hafi verið fólginn í samvinnunni. Krafturinn sem myndast þegar fólk stefnir í eina átt með sameiginleg markmið og sýn kemur manni áfram í gegnum hvaða raun sem er.
Hvað var skemmtilegast við lögreglunámið?
Held ég tali fyrir allan árganginn þegar ég segi að það skemmtilegasta við lögreglunámið hafi klárlega verið félagsskapurinn, án alls vafa. En kennararnir voru samt ekkert svo slæmir heldur. Þá komumst við í tæri við marga áratugi af uppsafnaðri reynslu og þjálfun og virtust bransasögurnar oft á tíðum engan endi ætla taka.
Hvernig er best að undirbúa sig fyrir starfið?
Andlegt og líkamlegt jafnvægi hefur mér þótt mjög mikilvægt í starfi lögreglumanns. Starfsumhverfið er með þeim hætti að séu sprungur fyrir getur verið erfitt að fylla í þær þegar mikið gengur á, vansvefta vaktavinnufólk er veikt fyrir ýmsum kvillum sem geta ýtt undir fyrri erfiðleika.
Undirbúningur fyrir lögreglustarfið er þó ekki ferli sem hefur upphaf og endi. Öll sú reynsla sem einstaklingur hefur öðlast í gegnum lífið kemur að öllum líkindum að notum á einhverjum tímapunkti á starfsævinni. Eins verður enginn fullnuma lögreglumaður, símenntun og æfingar eru reglulegur hluti starfsins allt til starfsloka.
Kom eitthvað þér á óvart í náminu?
Já, fleira en ég hef tölu á. Mest þó sennilega áherslan á öguð og fagmannleg vinnubrögð. Skýrsluskrif og lögreglusiðir voru frábær leið til að kippa okkur niður á jörðina eftir ákafar og krefjandi verklegar æfingar. Skýrsluskrifin voru sennilega það tormeltasta sem boðið var upp á en það má líkja því að læra að skrifa góða lögregluskýrslu eins og að læra nýtt tungumál. Málfar og orðaval er ekki eins og gengur og gerist í almennri íslenskukennslu.