Val á nemendum í starfsnám hjá lögreglu

Þann 11. janúar sl. lauk mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu við val á nemendum í starfsnám hjá lögreglu úr hópi umsækjenda sem eru nemendur í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Alls bárust 65 umsóknir um starfsnám en einn dró umsókn sína til baka, tveir uppfylltu ekki skilyrðin, 9 luku ekki þrekprófum með fullnægjandi árangri og tveir luku ekki bóklegum prófum með fullnægjandi árangri. Þrír umsækjendur mættu ekki í þrekprófin og boðuðu ekki forföll. Í ljósi skorts á menntuðum lögreglumönnum ákvað ríkislögreglustjóri, að höfðu samráði við HA, að taka alla þá 48 umsækjendur sem uppfylltu skilyrðin inn í starfsnámið, 27 konur og 21 karl.