Opnað hefur verið fyrir umsóknir í starfsnám 2021-2022

Opið er fyrir umsóknir um starfsnám í lögreglufræði hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Gert er ráð fyrir að 40 nemendur hefji starfsnám í janúar 2021. Umsóknarfrestur er til og með 4. maí 2020 og skal sækja um rafrænt hér að neðan. Samhliða umsókn skal senda vottorð frá lækni samkvæmt staðli Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu til Vinnuverndar ehf., Holtasmára 1, 201 Kópavogi merkt„Trúnaðarlæknir ríkislögreglustjóra – starfsnám lögreglu“. Þá er líka hægt að senda læknisvottorðin í gegnum rafræna sendingargátt hjá Vinnuvernd.

Auk þessa þurfa umsækjendur að standast þrekkröfur og annað sem tilgreint er hér að neðan. Til að koma til greina þurfa umsækjendur að hafa staðist eftirfarandi áfanga við Háskólann á Akureyri fyrir lok desember 2020: 1) LRF0176160 Inngangur að lögreglufræði (Lögreglustarfið) og 2) LÖG0176100 Inngangur að íslenskri lögfræði.

Umsóknir sem berast innan auglýsts umsóknarfrests eru teknar til meðferðar, en aðrar ekki.

Almennu skilyrðin eru eftirfarandi samkvæmt 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu nr. 221/2017:

Að vera íslenskur ríkisborgari. Að vera fullra 20 ára eða eldri þegar starfsnám hefst. Að hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Að standast kröfur um andlegt og líkamlegt heilbrigði, sbr. læknisvottorð og sálfræðimat. Að standast kröfur um þrek og styrk skv. viðmiðum sem mennta- og starfsþróunarsetur setur. Hafa lokið stúdentsprófi eða annarri sambærilegri menntun. Umsækjendur skulu hafa fullnaðarskírteini fyrir B-flokk og gild ökuréttindi.

Verði umsækjandi valinn í starfsnám þarf hann að ljúka almennu skotvopnanámskeiði á vegum Umhverfisstofnunar á eigin kostnað áður en starfsnám III hefst í maí 2022.

Vægi einstakra matsþátta er eftirfarandi: Inngangur að lögreglufræði (20%). Inngangur að íslenskri lögfræði (20%). Viðtal, þrekpróf, sálfræðimat og önnur verkefni (60%)

Til að sannreyna hvort viðkomandi uppfylli skilyrði b-liðar 1. mgr. 38. gr. er mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.

Umsækjendur sem uppfylla öll almenn skilyrði auk annarra inntökuprófa eru boðaðir til viðtals hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu.

Fyrirspurnir skal senda á netfangið starfsnam@logreglan.is

Umsækjendur skulu kynna sér umsóknarferlið og mat á umsóknum í hér handbók

Download (PDF)

Upplýsingar um þrekpróf sem fara fram 2.-8. júní 2020 má finna hér

Download (PDF)