Eitt af hlutverkum mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu (MSL) er að annast alþjóðasamskipti á vettvangi lögreglumenntunar.

CEPOL-European Police College er miðlægt menntasetur fyrir starfsfólk lögreglu í löndum Evrópubandalagsins. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hefur gert samning við CEPOL sem gerir starfsfólki lögreglunnar á Íslandi kleift að sækja sér námskeið og fræðslu hjá CEPOL. Námskeiðin eru bæði vefnámskeið og staðnámskeið. Hvað staðnámskeið varðar innheimtir CEPOL ekki námskeiðsgjald en þátttakendur þurfa sjálfir að greiða ferðakostnað, gistingu og uppihald. Starfsþróunarsjóðir styrkja öllu jöfnu starfsmenn til slíkrar þátttöku.

NORDCOP er samvinnuverkefni menntastofnana sem fara með lögreglumenntun á Norðurlöndunum, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Markmiðið er að auka samstarf milli landa á sviði mennta- og fræðslumála og stuðla að nemendaskiptum milli landa sem og uppbyggingu á faglegu starfi sem fram fer í vinnuhópum utan um hvert verkefni.

Auk CEPOL og NORDCOP samstarfsins hefur setrið gert samstarfssamning við Centre of Forensic Interviewing við Háskólann í Portsmouth. Nánari upplýsingar umCentre of Forensic Interviewing má finna hér.

Í gegnum tengslafulltrúa lögreglu og Tollstjóra hjá Europol á MSL samstarf um miðlun þekkingar en Europol er einn stærsti þekkingarvinnustaður lögreglu í Evrópu. Nánari upplýsingar um starfsemi Europol má sjá hér.