Þjálfun lögreglufræðinema í akstri með forgangi

Diplómanemar í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri njóta starfsþjálfunar hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Þessa stundina eru 46 nemendur á öðru ári í starfsnámi en í desember n.k. verða valdir 40 nemendur til viðbótar á fyrsta ári.

Meðal þess sem nemarnir læra í starfsnámi er að aka lögreglubifreið með forgangi. Um er að ræða mikilvæga þjálfun sem ætlað er að bæta öryggi bæði almennings og lögreglumanna sem starfs síns vegna þurfa oft að aka forgangsakstur við erfiðar aðstæður. Nemarnir eru þjálfaðir í litlum hópum við öruggar aðstæður áður en þeir hljóta þjálfun í umferðinni. Akstursþjálfunin tekur um viku tíma og áætlað er að allir annars árs nemendur verði búnir að ljúka þjálfuninni í apríl 2018.